Rósalína - Fataskápurinn

Hver þekkir það ekki þegar fataskápurinn er orðinn úttroðinn og allt rými upptekið. Þá þarf að bregðast við og losa úr honum svo að til verði pláss fyrir nýtt og skemmtilegt. Ástríðan á handverkinu hefur alla tíð verið mikil hjá mér og hugmyndaflugið óstöðvandi og þess vegna hef ég alltaf átt mikið af heimaprjónuðum/hekluðum peysum eftir sjálfa mig.

Það er alltaf gaman að upplifa og njóta sín í “nýrri” flík en mikil vakning hefur verið í verslun með “second hand” eða notuð föt um allan heim þar sem haft er að leiðarljósi að nýta það sem fyrir er, endurnýta og hefur þetta form verið kallað “hringrásarkerfið”! Í dag er þetta viðurkennd aðferð til að vinna gegn eyðingu grænna svæða víðsvegar um heiminn en einnig til að vinna gegn barnaþrælkun! Ég hef sjálf verið mjög dugleg við að nýta mér verslanir með notuð föt í gegnum tíðina og margan demantinn hef ég fundið þar!

Með þessa hugsjón að leiðarljósi ætla ég að bjóða upp á þennan möguleika hér í Rósalínu-fataskápurinn þar sem hægt verður að kaupa notaðar flíkur úr mínum fataskáp sem ég hef hannað og gert til að hringrásin viðhaldist.

Ég mun halda áfram að styrkja gott málefni með því að versla sjálf, og gefa annan fatnað sem til fellur, í góðgerðar- verslanir eftir sem áður.

Garnið sem ég hef notast við í flíkurnar er, eins og í nýjum vörum Rósalínu, margskonar, og því mikilvægt að huga vel að þvotti vörunnar. Ég mæli einungis með mildum handþvotti og að flíkin sé síðan látin liggja til að þorna! Þetta á við um allar hönnunar vörur Rósalínu, bæði nýjar og notaðar og mikilvægt að hafa það í huga. Hér eru allar flíkurnar lítið notaðar og vel um þær hugsað en auðvitað getur borið á eðlilegum breytileika í handverkinu.

Umfram allt er að njóta þess að vera í fallegri flík og ekki er verra að vita um hennar uppruna og það get ég staðfest að allar flíkur Rósalínu vörumerkisins eru búnar til af mikilli ástríðu og óbilandi áhuga fyrir handverkinu. Lifum og njótum í fallegri flík og hugsum um okkar fallega umhverfi í leiðinni!

Rósalína
Fegurð í litum