Rósalína - Málverk
Þegar ég var lítil stelpa átti ég mér þann draum að verða innanhúss-arkitekt þegar ég yrði stór en á endanum varð það ekki arkitektúr sem varð fyrir valinu heldur listin að hjúkra!
Í barnæsku kom það fljótt í ljós að eitthvað blundaði í mér á listræna sviðinu. Ég var ung að árum þegar handavinnan heillaði mig og einnig áhuginn á að endurskipuleggja herbergið á æskuheimilinu með breyttri uppröðun á hlutum en ekki síður til að kalla fram nýjar litasamsetningar.
Í barnæsku fékk ég hrós í skólanum fyrir fallegar og sérstakar teikningar og fram eftir aldri elskaði ég að mála eftir númerum og stúderaði vel litbrigði og litasamsetningar á myndfletinum. Ég hef því heillast af þessum tengdum listgreinum á Listatrénu. Ég hef alltaf átt mér þann draum að læra listmálun, að læra tæknina sem ég gæti svo þróað á minn einstaka hátt með tímanum. Að læra listasögu heimsins og skoða verk þeirra sem farnir eru og rýna í aðferðir, listastefnur og strauma. Ég hef lokið tveggja ára námi í listum auk ýmissa námskeiða og tekið þátt í nokkrum samsýningum en draumurinn um áframhaldandi nám lifir enn!
Það sem veitir mér innblástur til myndsköpunar eru sömu hughrifin og í handverkinu, litagleði náttúrunnar, æskuminningar um dásamleg blómabeð elsku móður minnar en einnig að fanga allt litróf tilfinninga. En hvað er fallegra en sú innri næring sem fallegt myndverk veitir í lífsins hraða og glundroða. Gleði og hamingja fangast á svo marga vegu og mikilvægast að hún komi úr öllum áttum, lífið er listin að njóta!
Rósalína
Fegurð í litum