Rósalína - Um okkur - nýjar vörur

Lífið er yndislegt og færir okkur óendanleg tækifæri til að njóta og gleðjast. 
Í náttúrunni blasir við okkur ósnortin fegurð í formi og lit þar sem breytileiki birtu færir okkur margvíslega tilbreytingu svo að upplifunin verður ætíð einstök og einlæg. Segja má að í fegurð náttúrunnar spretti upp hugmyndir sem ýta undir frjóa hugsun hvers manns. Fallegt og gefandi umhverfi er hverri mannveru nauðsynlegt, kanski frekar lífsnauðsynlegt til að hægt sé að vaxa og dafna á sem heilbrigðastan máta. Hver og einn hlúir að sínu nærumhverfi, ræktar garðinn sinn svo að lífsins blómið fái þá næringu og hvattningu sem þörf er á. Öll erum við einstök með mismunandi lífsins gildi og langanir.

Hjá Rósalínu erum við meðvituð um fjölbreytileika lífsins í formi lita og fegurðar og notum alla liti regnbogans sem gleðja okkur og hvetja áfram í allri hönnun okkar og framsetningu. Ég varð snemma hugfangin að litafegurð blómabeða æskuheimilisins þar sem grænu fingur móður minnar fengu að njóta sín. Náttúran og allt blómahafið hefur verið mér mikil hvattning þannig að sköpunarþráin á sér engin takmörk hvorki í hönnun né vali á litum. Ég lærði snemma að hekla og prjóna og hef ég í raun verið haldin óstöðvandi ástríðu síðan. 

Segja má að ég hafi fengið áhugann með móðurmjólkinni þar sem móðir mín, Sigríður G. Sigurðardóttir, var mikil hannyrðakona og eins og komið hefur fram, ræktaði hún garðinn sinn með fallegum litríkum blómum sem hafði mikil áhrif á þroska minn sem barns og mótun sem fullorðins einstaklings. Rósalína er núna mín ástríða og á alla mína athygli. En á bak við alla góða og áhugaverða starfsemi er teymi sem stendur þétt saman og tekur sameiginlegar ákvarðanir fyrirtækinu til heilla og er það einnig með Rósalínu.

Nú fer fyrir sjónir ykkar fyrsta hönnunarlína Rósalínu og tókum við þá ákvörðun að hún yrði hekluð. Heklaðar peysur eru fallegar og nokkuð sérstakar þar sem í heiðri er hafður þjóðararfurinn svo kallað „ömmu dúllu teppi“. En Rósalína mun einnig er fram líða stundir bjóða upp á prjónaðar hönnunar flíkur og ýmislegt fleira. Framtíðin er spennandi og við hjá Rósalínu vonum að vörurnar okkar muni vekja eftirtekt og áhuga hjá sem flestum.

Að lifa er að njóta og að njóta er m.a. að leyfa fallegri og hlýlegri flík að umvefja sig og næra lífsins anda. Lífið er of stutt til þess að neyta sér þeirri gleði og ánægju sem fylgir auknu sjálftrausti þegar borin er einstök flík í fallegum litum. Lifið og njótið!

Rósalína
Fegurð í litum
Hönnun og handverk

Í minningu elskulegrar móður sem var mentorinn minn í handverkinu. Sólveig Hólm Guðmundsdóttir 




 

 

 

 

Í  minningu elskulegrar móður sem kenndi mér svo margt í handavinnunni, hvernig ætti að búa til fallega handgerða flík. Hér, í einni af okkar uppáhaldsstundum, stitjum við undir vegg í sól og sumri með prjóna í höndum og gosdrykk í glasi að búa til sitthvort prjónlesið. En á meðan hendurnar iðuðu, spjölluðum við um heima og geima. Þessar gæðastundir og alla viskuna frá yndislegri móður minni mun ég geyma og varðveita í hjarta mínu um aldur og ævi.
Sólveig Hólm Guðmundsdóttir